Hafnfirskar fjölskyldur og flóttafjölskyldur hittust í skólagörðunum við Öldutún síðdegis í gær í glaðasólskini. Þetta var opnunaviðburður fyrir uppskeruverkefni á vegum Hafnarfjarðarbæjar og GETA-hjálparsamtaka til að efla tengsl.
Uppskáru gleði og mannrækt við gróðursetningu grænmetis. Markmiðið er að tengja saman þessar fjölskyldur sem allar búa í Hafnarfirði og gefa þeim tækifæri til að deila reynslu og þekkingu og hjálpast að við að rækta sitt eigið grænmeti í sumar. Carmen Fuchs, sérfræðingur í málefnum flóttafólks hjá Hafnarfjarðarbæ stýrir verkefninu. Hún segir ræktun stundaða um allan heim og því tilvalda til að efla tengslin.